Thursday, March 26, 2009

Síkagó 2009

Hér er ég staddur í kjallaranum á Crowne Plaza O'Hare hótelinu við útjaðar Síkagóborgar.
Í uppsiglingu er PyCon 2009 ráðstefnan, sem ég er að heimsækja f.h. CCP.
Ég flaug hingað  í tveimur áföngum í gær.  Flugið til Bótólfssteins hófst kl. 17. í Keflavík og varði í fimm tíma.  Við tók svo tveggja-og-hálfs tíma til Síkagó.
Þegar hingað kom var ég orðinn nokkuð þreyttur enda klukkan að ganga fjögur á Íslandi.  Ekki bætti úr skák að ferðataskan mín skilaði sér ekki.  Ég hef því engin föt til skiptana og ekki einu sinni tannbursta til að geifla mig með.  Ég beit í handsápu í morgun og er það ekki það besta í heimi.
Vonandi skilar taskan sín sér í dag.  Verði hún ekki komin í kvöld fer ég að kaupa mér nýtt dress og nýti mér ferðatrygginguna mína sem er afar góð.

Núna sit ég á "Python language summit" fundinum og er verið að ræða um framtíð málsins af helstu hugsuðum í Python heiminum.  En ég hugsa að ég skrópi eftir hádegið því þá er ekkert sérstakt að gera og reyni að sinna nauðsynlegustu innkaupum.

Monday, February 23, 2009

Sjanghæ

Núna er ég kominn til austurlanda fjær, í fyrsta sinn síðan 1993 þegar ég fór í mikla Bjarmalandsför með verkfræðifélögum mínum.
CCP er með skrifstofu í Sjanghæ, og ég flaug þangað gegnum Lundúni, 20. febrúar ásamt fjórum kollegum mínum: Jörundi, Gabe, Natani og Óla Dan. Þetta er um 12 tíma flug frá Lundúnum og ég reyndi að sofa sem mest á leiðinni. Vélin fór í loftið um hádegið á föstudegi en þegar hún lenti var klukkan níu að morgni daginn eftir, að staðartíma.
Kjartan vinur minn rekur skrifstofuna hér og er búinn að búa hér í þrjú ár. Hann er búinn að fínpússa bestu aðferðina til að vinna bug á tímamuninum: Að halda sér vakandi þennan komudag alveg til miðnættis og fara þá að sofa.
Þetta gerðum við náttúrlega samviskusamlega. Kjartan fylgdi okkur í gönguferð um franska hverfið í Sjanghæ þar sem skrifstofan er, og við fengum okkur svolítið í gogginn og svolítinn bjór. Þvínæst fórum við niður í einhverskonar miðbæ og skoðuðum risavaxið líkan af borginni.
Þessi borg er vægast sagt risavaxin og erfitt að finna á henni einhverja miðju. Manni finnst sérhvert götuhorn vera eins. Franska hverfið er þó frábrugðið því það inniheldur nær eingöngu frekar lágreist hús og villur. En annars standa íbúðaturnarnir í röðum svo langt sem augað eygir: 30 og 40 hæða risablokkir úr steinsteypu, fullar af fólki.
Laugardagurinn hélt svo áfram eins og til var sáð: Við settumst niður á útlendingabarinn Barbarossa um fjögurleytið, þar sem flugþreytan fór að láta taka vel til sín. En henni útrýmdum við samviskusamlega með koffíni og alkóhóli. Þvínæst skruppum við á einn eða tvo bari en fengum okkur loks að borða á Japönskum Teppanyaki stað.
Ég var kominn í bólið um miðnætti og svaf alla nóttina. Daginn eftir vaknaði ég skömmu fyrir hádegi og var þotuþreytan að mestu á bak og burt.